Header image header image 2  
leiðbeiningar
 


Uppbygging

Hefðbundin uppbygging heimildaritgerðar er:

  • Forsíða
  • Saurblað (val)        
  • Efnisyfirlit
  • Inngangur
  • Meginmál
  • Lokaorð
  • Heimildaskrá

1. Forsíða
Í Garðaskóla gilda ákveðnar reglur um uppsetningu forsíðna. Mikilvægt er að titillinn sé áhugaverður, markviss og endurspegli með einhverjum hætti efni ritgerðar. Vanda skal uppsetningu á forsíðu.


2. Saurblað
Sumir kjósa að hafa autt blað milli forsíðu og efnisyfirlits. Það kallast saurblað.


3. Efnisyfirlit
Í efnisyfirliti á að sýna uppbyggingu, kaflaheiti og blaðsíðutal ritgerðar. Word-forritið gefur kost á sjálfvirkri aðferð við gerð efnisyfirlits. Gæta þarf þess að hafa  samræmi milli efnisyfirlits og fyrirsagna í sjálfri ritgerðinni.


4. Inngangur
Gott er að hefja ritgerð með góðri kveikju þar sem áhugi er vakinn á efninu. Gera þarf grein fyrir þeim spurningum sem ritgerðin á að svara, kaflaskiptum og efnisinnihaldi þeirra. Einnig á að gera grein fyrir því hvað lokaorð fela í sér


5. Meginmál
Aldrei skal nota kaflafyrirsögnina „Meginmál“ í meginmáli. Fyrirsagnir kafla eiga að endurspegla og vekja áhuga á efni kaflanna. Í meginmáli er spurningum svarað í samfelldu máli. Meginmáli er skipt í kafla eftir efnisþáttum. Það auðveldar lestur og sá sem ritar þarf aðeins að hugsa um einn kafla í einu. Gott er að hefja nýjan kafla á einum til tveimur málsgreinum sem lýsa því sem á eftir kemur. Gæta þarf þess að kaflar tengist innbyrðis. Í meginmáli er viðfangsefninu gerð skil samkvæmt heimildum. Áhersla skal lögð á aðalatriðin samkvæmt markmiðum ritgerðar og ekki á að fara of mikið út í smáatriði. Vitna ber í heimildir þegar það á við og ágætt er að draga saman einhverja niðurstöðu í lok hvers kafla.


6. Lokaorð
Í lokaorðum eru aðalatriði ritgerðarinnar dregin saman í nokkurs konar útdrátt. Þess er jafnframt gætt að spurningunum, sem settar voru fram í inngangi, sé svarað. Í lokaorðum á að koma fram niðurstaða og þar er eini staðurinn í ritgerðinni sem höfundi gefst raunverulegt tækifæri til að setja fram eigin skoðun á efninu. Þar gefst honum einnig tækifæri til að sýna sjálfstæði og frumkvæði, koma með áhugaverð sýn á viðfangsefnið eða tengja það við eigin viðhorf og reynslu. Sumum hættir til að hafa lokaorðin allt of stutt og innihaldslítil. Sem dæmi um ónothæf lokaorð er t.d. þessi málsgrein: „Mér fannst þetta efni mjög skemmtilegt og hef lært mikið á því að gera þessa ritgerð.“.


7. Heimildaskrá
Í heimildaskrá eru skráðar allar þær heimildir sem notaðar voru eða stuðst var við. Gæta þarf þess að fara eftir nákvæmum reglum um skráningu heimilda.

 

Garðaskóli - Garðabæ
   
Garðaskóli GarðabG