Gardaskoli Logo Heimspekivefur Garðaskóla


Heimspeki með börnum og unglingum

Tekið saman af Brynhildi Sigurðardóttur

Yfirlit um þennan kafla:

1. Í stuttu máli
2. Kynningarmyndbönd á Netinu
3. Hvað er heimspeki?
4. Til hvers að stunda heimspekilega samræðu með börnum og unglingum?
5. Þáttur heimspekikennslu í lýðræðislegu samfélagi
6. Hvað er gert í kennslustundum?
7. Fræðilegar undirstöður
8. Rannsóknir á heimspeki með börnum og unglingum

1. Í stuttu máli:

Heimspeki með börnum og unglingum fer fram í samræðufélagi nemenda (Community of Inquiry) sem kennari skipuleggur og stjórnar framvindunni í. Að stunda heimspeki með börnum og unglingum hefur það megin markmið að virða og virkja forvitni þeirra og þjálfa þau í að taka þátt í gagnrýninni samræðu sem nýtist þeim í öllu námi og sem virkum þátttakendum í lýðræðissamfélagi. Samræðufélag er hópastarf sem stefnir stöðugt að lærdómi og auknum sjálfskilningi þátttakenda sem eru virkir í að rannsaka eigin hugmyndir og annarra og leiðrétta þær þegar góð ástæða er til.

Starfið í samræðufélaginu nærir og þroskar 4 víddir hugarstarfsins:

  1. Gagnrýna hugsun
  2. Skapandi hugsum
  3. Umhyggju og samhygð
  4. Samstarfshæfni

Afrakstur heimspekilegrar samræðu er:

  1. Þroskaðri hugsun
  2. Betri samskiptahæfni (að hlusta og tala)
  3. Skýrari sýn á eigin tilfinningar
  4. Aukin samfélagsvitund

2. Kynningarmyndbönd á Netinu :

Á Netinu (t.d. www.youtube.com) má finna myndbrot þar sem heimspekikennarar frá ýmsum heimshornum segja frá starfi sínu og sýnd eru brot úr samræðum barna. Hér eru tenglar í nokkur gagnleg myndbönd:

 
 

3. Hvað er Heimspeki?

Nemandi í Heimspekiskóla Hreins Pálssonar sem starfaði á 10. áratugnum svaraði þessari spurningu svona: Heimspeki er rannsókn á möguleikum.

Annars konar svar má finna á heimasíðu heimspekiskorar Háskóla Íslands. Þar er m.a. hnitmiðuð lýsing á fræðigreininni, lýsingar á ýmsum undirgreinum heimspekinnar og hagnýtu gildi þess að hafa lært heimspeki.

Haustið 2007 fékk heimspekival Garðaskóla heimspekinginn Ólaf Pál Jónsson til að upplýsa sig um líf og starf heimspekinga. Hér eru glósur úr tímanum hans.

Til að skilja af hverju það þjónar tilgangi að kynna börn og unglinga fyrir heimspeki er mikilvægt að hugsa um fræðigreinina sem gagnrýna samræðu. Vissulega má segja að heimspekin sé annað og meira en slík samræða. Hún á sér langa hefð, einkennist af ákveðnum aðferðum og vinnubrögðum, fjallar um ákveðin hugtök og saga hennar geymir ýmiss konar kenningar um þessi hugtök. En það væri ekki auðvelt að réttlæta hugmyndina um að kenna ætti börnum kenningar heimspekinnar - af hverju ættum við að bæta því safni við öll önnur hugmyndasöfn sem við otum að börnum? Börn vantar ekki hugmyndir, en oft vantar þau tíma og þjálfun til að vinna vel úr hugmyndum sínum og tvinna þær saman við nýjan lærdóm.

Heimspeki er umfram allt gagnrýnin samræða. Í þessu felst að heimspekin tekur gagnrýna afstöðu til viðfangsefna sinna og vinnur með þau í samræðu, hvort sem það er samræða einstaklings við bókartexta eða heimspekihefðina, eða samræða nemanda í hópi jafningja.

4. Til hvers að stunda heimspekilega samræðu með börnum og unglingum?

Meginástæðurnar eru tvær:

  1. Það á að kenna börnum og unglingum heimspeki af því að fræðigreinin myndar rætur allra annarra fræðigreina og ástundun hennar þjálfar vinnubrögð og viðhorf sem nýtast í öllu námi, starfi og daglegu lífi. Meðal þátta sem heimspekileg samræða þjálfar eru gagnrýnin og skapandi hugsun, þátttaka í samræðu sem er grundvallarþáttur í lýðræðislegu samfélagi og nemendur fá tækifæri til að skoða eigið sjálf í samhengi við aðra og samfélagið í heild.
  2. Heimspekileg samræða er mót fyrir ákveðin vinnubrögð í námi og fræðimennsku, vinnubrögðum sem oft vilja verða útundan í skólastarfi en eru nauðsynleg ef nemandinn á að vera virkur og sjálfráða í eigin námi. Að taka heimspekina inn í skólastarf getur því verið liður í því að móta skólastarf þar sem nemendur eru mjög virkir í að skipuleggja eigið nám og stjórna gangi þess út frá eigin áhugasviðum á skynsamlegan hátt.

Philip Cam, ástralskur heimspekingur og kennari, heldur því fram að það sé jafn mikilvægt að kenna rökhugsun og það er að kenna lestur og reikning. Engin fræðigrein býr yfir jafn góðum og margreyndum tækjum til að þjálfa hugsunina og heimspekin.
(Cam, P. (2006). 20 Thinking Tools. Camberwell, Australia: ACER Press.)

Þótt hér sé í raun verið að ýja að því að heimspekin geti bylt skólastarfi til hins betra þá er hér ekki verið að kynna nýja eða sérstaklega frumleg hugmynd. Grunnhugmyndina má rekja að minnsta kosti aftur til franska 18. aldar heimspekingsins Jean-Jacques Rousseau sem í bók sinni ,,Emile" (kom fyrst út 1762) setti fram byltingarkenndar hugmyndir um fegurð og hæfileika barnsins. Hugmyndir Rousseau má túlka sem svo að við þurfum bara að leyfa börnum að vera í friði, þá þroskast þau í góðar manneskjur sem eru sáttar við sjálfar sig og móta gott samfélag. Síðan verk Rousseau birtist hafa ótal hugsjónamenn og konur sett fram gagnrýni á skólastarf sem matar nemendur á upplýsingum eins og þeir væru óvirkar móttökuvélar, skólastarf sem hefur verið allsráðandi síðastliðnar tvær aldir. Þórbergur Þórðarson er meðal Íslendinga sem tekið hafa þátt í þessari gagnrýni. Í upphafi Ofvitans (kom fyrst út 1940-1941) fjallar hann um nám sitt við Kennaraskólann sem honum leiddist ákaflega. Þórbergur segir um skólanám sitt:

Það kom hvergi nærri einu einasta viðfangsefni, sem mitt sí-hungraða líf hafði knúið mig til að reyna að brjóta til mergjar. Það vakti ekki í mér nein ný heilabrot, opnaði mér engar nýjar víðáttur. Það kom engri minnstu hreyfingu á sálarlíf mitt, kveikti ekki í mér neina aðkenningu af jákvæðari afstöðu til lífsins. Það kom aldrei í námunda við nein kjarnamál tilverunnar, skóp enga gerjun í sálinni, engan gróanda í vitsmunalífinu, engan styrk í innrætinu.
En þessi andlausi samtíningu á yfirborðsmolum kom mér oft til að spyrja sjálfan mig:
Hvers vegna er okkur ekki veitt nein tilsögn í að byggja upp sál okkar, svo að við verðum ofurlítið vitrari, betri og sterkari einstaklingar?
Hví er okkur ekki kennt að beita hugsuninni, að vega og meta röksemdir, að draga réttar ályktanir, að finna réttar undirstöður að réttum ályktunum?
Af hverju er okkur ekki leiðbeint í að hugsa og breyta sjálfstætt, að elta ekki aðra, að gerast ekki þrælar vanahugmyndanna?
Af hvaða ástæðum er ekki brýnt fyrir okkur að leita sannleikans, að finna sannleikann, að fylgja sannleikanum, að lifa fyrir sannleikann?
Hverju sætir það, að við erum aldrei uppfrædd í að vinna bug á veikleika okkar, að sigrast á óttanum, hatrinu, hræsninni, undirlægjuskapnum, sorginni, ágirndinni, öfundsýkinni, drottnunargirninni...?
Hvernig í ósköpunum stendur á því að við erum ekkert frædd um manneðlið og mannlífið, eins og þetta hvorttveggja er í raun og veru?
Í fám orðum sagt:
Hér er andskotann ekkert gert til þess að auka manngildi okkar.
Mér skilst þó, að það sé einmitt þetta, sem ætti að vera undirstaða allrar menntunar. Er ekki þekkingarhrafl, sem gerist vinnuhjú lastanna, háskalegra en fáfræði? Væri ekki öllu gagnlegra að kunna að staga saman vefnaðargallana í sínu eigin upplagi heldur en að eyða tímanum í að hlaða sig einhverju andvana þrugli um saumnálasmíðar úti í Englandi?

Þórbergur Þórðarson. (1964). Ofvitinn, 2. útgáfa, endurskoðuð. Reykjavík: Mál og menning. Bls. 40-41.

Ég spyr eins og Þórbergur: ,,af hverju er skólinn eins og hann er en ekki fyrir hugsandi manneskjur í leit að innihaldsríku lífi?"
Svör við spurningum Þórbergs eru eflaust löng og flókin. En ef ég gef mér að fólk, t.d. Íslendingar, vilji mennta börnin sín í þá átt sem Þórbergur bendir á, þá býr heimspekin yfir leiðum sem hægt er að nýta í kennslunni.

Heimspekileg samræða býður nemendum að fást við spurningar sem þeim sjálfum finnast mikilvægar. Það sem nemendum finnst mikilvægt eru spurningar sem snerta tilveru þeirra, áhugasvið og daglegt líf. Í glímunni við þessar spurningar fá þeir útrás fyrir þörf sína til að ,,byggja upp sál sína" og með góðri leiðsögn fræðast þeir um ,,manneðlið og mannlífið, eins og þetta hvorttveggja er í raun og veru."

Heimspekileg samræða er rökföst og gagnrýnin. Þannig kennir hún nemendum ,,að beita hugsuninni, að vega og meta röksemdir, að draga réttar ályktanir, að finna réttar undirstöður að réttum ályktunum."

Heimspekileg samræða krefst þess að nemendur hugsi fyrir sjálfa sig, beri hugmyndir sínar saman við hugmyndir annarra og leggi sig fram um að skoða ólíkar hliðar á málum og sjónarmið þeirra sem þeir eru mest ósammála. Með þessu ýtir hún undir sjálfstæði nemendanna og hjálpar þeim að koma auga á vannann og brjótast út úr honum þegar þörf er á.

Heimspekileg samræða hverfist um stórar, heimspekilegar spurningar. ,,Hvað er fegurð?" ,,Hvað er sannleikur?" ,,Hvað er raunverulegt?" ,,Hvað er gott líf?" Á þennan hátt dregur heimspekin nemendur inn í leitina að sannleikanum - hún er kjarninn í samræðunni.

Heimspekileg samræða skoðar samkvæmni hlutanna og spyr hvort við gerum það sem við segjum, hvort við segjum það sama heima hjá okkur og í skólanum, o.s.frv. Með þessu móti ýtir samræðan undir það að nemendur skoði sjálfa sig á heiðarlegan hátt. Ef kennslan er skipulögð þannig að nemendur fái tækifæri til að gera raunverulegar tilraunir út frá því sem þeir fjalla um í samræðu sinni þá fá þeir tækifæri til að reyna ,,að vinna bug á veikleikum sínum."

5. Þáttur heimspekikennslu í lýðræðislegu samfélagi

Heimspekilegt samræðufélag er í raun smækkuð mynd af lýðræðissamfélagi sem leitast við að leiðrétta mistök sín jafnóðum og þau uppgötvast. Þátttakendur fá sjálfkrafa fyrirmynd og þjálfun í gagnrýninni og skapandi hugsun sem eflir dómgreind þeirra og undirbýr þá til virkrar þátttöku í lýðræðissamfélaginu utan kennslustofunnar. Í samræðufélaginu þurfa nemendur að hafa hugrekki til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Þeir þurfa líka að taka þátt í að þróa samræðufélagið sífellt áfram og gera það að því samfélagi sem nýtist þeim til lærdóms og samveru.

Ólafur Páll Jónsson, heimspekingur og lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands rannsakar tengsl skóla og lýðræðis. Niðurstöður hans styðja við þá hugmynd að heimspekileg samræðufélög gegni mjög mikilvægu hlutverki í skólastarfi. Sjá t.d. fyrirlestur hans á ráðstefnu FUM í febrúar 2008.

6. Hvað er gert í kennslustundum?

Dæmigerð kennslustund í heimspeki gengur þannig fyrir sig að kennari byrjar á því leggja kveikju fyrir nemendur. Oftast er kveikjan texti sem nemendur lesa saman en stundum er horft á mynd eða bíómynd, hlustað á tónlist, farið í vettvangsferð o.s.frv. Kveikjan er reynsla sem gefur nemendum sameiginlegt upphaf til að hugsa út frá. Nánar um kveikjur.

Nemendur velta því fyrir sér hvað kveikjan vekur þá til umhugsunar um og koma fyrstu hugmyndum sínum á framfæri í formi spurninga eða stuttra athugasemda sem kennari skrifar niður þannig að allir sjái. Þetta fyrirkomulag gerir nemendur samábyrga fyrir því sem tekið er til umfjöllunar og fjölbreytnin felst í uppástungum þeirra.

Nemendur velja hvaða spurningu þeir vilja byrja að taka til samræðu og kennarinn leiðir samræðuna með því að spyrja þá um rök og ástæður fyrir skounum sínum. Það er ekki síður mikilvægt að biðja nemendur að útbúa dæmi máli sínu til stuðnings. Kennari notar einnig fyrirfram undirbúnar spurningaraðir og verkefni en einungis þannig að þau tengist þeim umfjöllunarefnum sem leita á nemendur. Nánar um samræðuna.

Í lok kennslustundarinnar fer fram mat á samræðunni. Matið felst í að draga saman þær hugmyndir sem fram hafa komið og meta frammistöðu hópsins, t.d. hvort krafist var raka og skýringa, hvort ímyndunaraflið var nýtt til að finna ný sjónarmið, og hvort allir þátttakendur sýndu tilhlýðilega virðingu. Þetta mat gegnir mikilvægu hlutverki í að nemendur átti sig á þ ví í hverju samræðan felst, og hvernig þeir geta greint góða hugsun frá slakri. Nánar um matsaðferðir.

(Þessi samantekt er unnin með hliðsjón af texta frá Hreini Pálssyni)

7. Fræðilegar undirstöður

í vinnslu .

8. Rannsóknir á heimspeki með börnum og unglingum

Nýjasta yfirlit um rannsóknir á sviði heimspeki með börnum var unnið af Felix Garcia Moriyon og Esther Cebas sem starfa vð Universidad Autónoma de Madrid á Spáni. Samantektin var unnin 2003 og er hér birt á ensku.

UNESCO kallaði heimspekikennara frá öllum heimshornum saman til fundar í París haustið 2007 og afrakstur þess fundar má lesa í skýrslu á veraldarvefnum. Í skýrslunni segja höfundar frá heimspekikennslu í sínu heimalandi og má þarna fræðast um fjölmargar ólíkar leiðir og viðhorf.

 

Vísað er á frekara lesefni á síðunum lesefni og tenglar

Um heimspeki með börnum og unglingum | Hafðu samband við okkur | ©2007 Brynhildur Sigurðardóttir