Gardaskoli Logo Heimspekivefur Garðaskóla

 

Skot vikunnar

Rökræða felst í að færa rök til að styðja mál sitt,
þ.e. að gefa upplýsingar varðandi sannindi málsins.

©2009 Nemandi í 9. bekk í lífsleiknitíma í Garðaskóla


Fréttir úr heimspekilífi Garðaskóla

BS 01.11.10

Eru það mannréttindi að njóta fegurðar?

Það á kannski eftir að koma betur í ljós á næstu vikum. Í lífsleikni í 9. bekk eru nemendur að fjalla um réttindi. Þeir lesa meðal annars Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og skrifa stutta ritgerð út frá pælingum um það sem þar kemur fram. Í heimspekivalinu eru nemendur hins vegar að fjalla um fegurðina og listina.

BS 20.08.10

Heimspekikennsla í Garðaskóla 2010-2011

Í vetur eru tveir valhópar í heimspeki, kennarar eru Brynhildur og Ingimar. Í heimspekivalinu er höfuðáhersla lögð á að þjálfa samræðufærni nemenda og gagnrýna hugsun. Viðfangsefnin eru heimspekilegar spurningar af ýmsu tagi og fyrsta verkefni vetrarins er að fást við spurninguna "Hvað er heimspeki?" Svara er leitað í samræðu nemenda og á vísindavefnum.

Kennsluáætlun haustið 2010 má nálgast hér.

BS 19.08.10

Námskeiðið HEIMSPEKILEG SAMRÆÐA Í ÞVERFAGLEGU SKÓLASTARFI

Kennarar í Garðaskóla í samstarfi við félag heimspekikennara standa að námskeiði með franska heimspekingnum Oscar Brenifier sem hefur víðtæka reynslu í að stunda heimspekilega samræðu með börnum og fullorðnum á ýmsum vettvangi. Námskeiðið "Heimspekileg samræða í þverfaglegu skólastarfi" verður haldið í Garðaskóla 17. - 19. september kl. 9-16 alla dagana og er opið áhugasömum kennurum og heimspekingum. Hægt er að skrá sig á námskeiðið með því að senda tölvupóst til Ingimars Waage. Námskeiðið fer fram á ensku, námskeiðsgjald er 20.000 krónur og er matur og kaffi innifalið í verðinu.

Nánari lýsing á námskeiðinu.

Nánari upplýsingar um Oscar Brenifier má finna á heimasíðu hans.

BS 19.08.10

Þróunarverkefni í Garðaskóla

Síðastliðið vor sóttu 7 kennarar í Garðaskóla um styrk í Vonarsjóð Kennarasambands Íslands til að vinna að þróunarverkefninu "Gagnrýnin hugsun og sókratísk samræða". Hópurinn hlaut styrk og er þegar farinn af stað með undirbúning. Meðal fyrstu verka var að kalla félag heimspekikennara til samstarfs og skipuleggja námskeið með franska heimspekingnum Oscar Brenifier sem hefur víðtæka reynslu í að stunda heimspekilega samræðu með börnum og fullorðnum á ýmsum vettvangi.

Þróunarverkefnið felst í því að kennararnir sjö munu þjálfa færni sína í að taka þátt í heimspekilegri samræðu og vinna verkefni þar sem þeir beita samræðu sem kennsluaðferð í fagkennslunni hjá sér. Kennararnir sem taka þátt í verkefninu eru Anna Ragnarsdóttir (enska og spænska), Brynhildur Sigurðardóttir (heimspeki og lífsleikni), Guðrún Björk Einarsdóttir (textílmennt), Ingibjörg Anna Arnarsdóttir (deildarstjóri), Ingimar Ólafsson Waage (heimspeki, lífsleikni og myndmennt), Reynir Engilbertsson (samfélagsfræði) og Sturla Þorsteinsson (íslenska)

BS 19.08.10

Samráðsfundur heimspekikennara

Heimspekikennarar á suðvestur horninu hittust á fundi í Garðaskóla 11. ágúst síðastliðinn. Kennarar og heimspekingar af öllum skólastigum skiptust á fréttum af heimspekikennslu, vel heppnuðum verkefnum og spennandi áætlunum fyrir komandi vetur. Á fundinum sást að heimspekikennsla er að festa sig betur í sessi í íslenskum skólum þrátt fyrir að vera hvergi skyldunámsgrein skv. aðalnámskrám.

BS 15.09.09

Ný stjórn félags heimspekikennara

Félag heimspekikennara var stofnað 1996 en hefur legið í dvala um hríð. Félagið starfar sem fagfélag undir hatti Kennarasambands Íslands og hefur þann tilgang að styðja og efla faglegt starf heimspekikennara á öllum skólastigum.

Auka-aðalfundur félagsins var haldinn í Verzlunarskóla Íslands þann 10. september síðastliðinn og var þar kosin ný stjórn sem mun hafa veg og vanda að því að koma starfsemi félagsins aftur í gang. Í stjórn félags heimspekikennara sitja Ármann Halldórsson (formaður, kennari við Verzlunarskóla Íslands), Ingimar Waage (ritari, kennari við Garðaskóla) og Björn Rúnar Egilsson (gjaldkeri, leiðbeinandi við leik- og grunnskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík)

BS 19.08.09

Heimspekivalið skólaárið 2009-2010

Nemendur Garðaskóla eru boðnir velkomnir til starfa haustið 2009!

Í haust verða tveir hópar í heimspekivalinu og að venju eru í hópunum blanda af nemendum úr 9. og 10. bekk. Ingimar Waage kennir öðrum hópnum og Brynhildur Sigurðardóttir hinum. Brynhildur kennir líka framhaldsskólaáfangann Heimspeki 103 sem verður í boði í fyrsta sinn í Garðaskóla nú í haust.

Á þessari heimasíðu má nálgast upplýsingar um vinnu hópanna, bæði áætlanir og verk sem nemendur hafa lokið.

BS 22.06.09

Félag heimspekikennara endurvakið

Ármann Halldórsson, heimspekikennari í Verzlunarskóla íslands, kallaði heimspekikennara á öllum skólastigum til fundar 18. júní síðastliðinn þar sem rætt var um að endurvekja Félag heimspekikennara. Félagið hefur verið til í þó nokkur ár en starfsemin hefur verið lítil sem engin síðustu ár. Aukaaðalfundur félagsins verður haldinn 3. september 2009 og verður þar kosin ný stjórn, lög félagsins endurskoðuð og rætt um verkefnin framundan.

Á fundinum 18. júní ákváðu þeir sem munu kenna HEI 103 næsta vetur að hittast til skrafs og ráðagerða. Róbert Jack mun stýra fundinum sem haldinn verður um miðjan ágúst. Allir áhugasamir eru velkomnir á fundinn.

BS 01.06.09

Bjart framundan í heimspekivali Garðaskóla

Heimspekivalið heppnaðist framúrskarandi vel hjá Ingimari Waage í vetur. Nemendur luku skólaárinu með gerð útvarpserinda og voru mjög jákvæðir og ánægðir með starf vetrarins. Fjöldi nemenda í skólanum sótti um valið næsta vetur og verður kennd heimspeki í þremur hópum. Einn af þessum hópum mun taka heimspeki á framhaldsskólastigi því í fyrsta skipti verður áfanginn HEI 103 kenndur í Garðaskóla.

Ingimar mun fara á námskeið í sumar til Oscar Brenifier, heimspekings og kennara í Frakklandi. Oscar hélt námskeið um heimspekikennslu í Garðaskóla í febrúar síðastliðnum og ferð Ingimars kemur í framhaldi af því. Ingimar hyggur síðan á enn frekara nám í heimspekikennslu og mun hefja mastersnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í haust.

Auk Ingimars kemur Brynhildur Sigurðardóttir til baka í heimspekikennsluna í Garðaskóla.

BS 23.03.09

Norrænir kennaranemar heimsækja heimspekival Garðaskóla

Fimmtudaginn 26. mars kemur hópur norrænna kennaranema í heimsókn í Garðaskóla. Nemarnir eru á Íslandi í boði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Þeir heimsækja Garðaskóla vegna þess að þeir hafa sérstakan áhuga á að kynna sér starfið í heimspekivalinu og þá sérstaklega hvernig heimspekin þjálfar samræðu og lýðræðisleg vinnubrögð. Kennaranemarnir fá að líta inn í tíma til heimspekinemanna og spyrja þá nokkurra spurninga og síðan sjá kennarar um að kynna skipulag valgreinarinnar og svara fleiri spurningum.

BS 11.02.09

THINKING ALOUD: Námskeið og ráðstefna um heimspeki í skólum

í lok febrúar verður veisla fyrir heimspekikennara í Reykjavík. Þá heldur Hugvísindastofnun Háskóla Íslands ráðstefnuna THINKING ALOUD sem styrkt er af NORDPLUS. Kennarar og fræðimenn frá öllum norðurlöndunum og víðar að úr Evrópu munu halda erindi um fræðilegar og hagnýtar hliðar heimspekikennslu með börnum og unglingum. Heimspekikennarar og nemendur úr Garðaskóla munu einnig taka þátt í ráðstefnunni.

Ráðstefnan verður haldin dagana 27. og 28. febrúar. Námskeið fyrir kennara verður í tengslum við ráðstefnuna 25. og 26. febrúar kl. 15.00 - 19.00. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vef Hugvísindastofnunar.

BS 02.02.09

Heimasíðan í yfirhalningu

Þessi heimasíða hefur nú verið fjarverandi af vefnum um skeið vegna vandræða í uppfærslu á síðunni. Nú stendur þetta til bóta og uppfærð síða verður væntanlega að fullu sýnileg í þessum mánuði .

BS 02.02.09

Heimspekival Garðaskóla veturinn 2008-2009

Kennari í heimspekivalinu í vetur er Ingimar Waage sem einning kennir myndlist og margmiðlun við skólann. Ingimar hefur verið að þreifa sig áfram í heimspekikennslunni undanfarin misseri. Hann fylgir þeirri stefnu sem verið hefur ríkjandi í heimspekikennslunni í Garðaskóla undanfarin ár að leggja megináherslu á að nemendur fái þjálfun í gagnrýninni og skapandi samræðu.

Sýnishorn af vinnu Ingimars og nemenda hans í vetur má heyra í útvarpsþættinum Stjörnukíki á Rás 1.

BS 23.05.08

Komið að lokum

Nú er skólaárið alveg að verða búið. Heimspekinemar hafa klárað að ganga frá vinnubókum sínum og skila inn sjálfsmatsblöðum. Þessi gögn notar kennarinn til að setja saman námsmat og einkunn nemenda fyrir vorönnina. Einnig hafa nemendur skilað inn áliti á starfi vetrarins og má lesa þær niðurstöður hér. Það er óhætt að segja að heimspekinemarnir séu ánægðir og haldi glaðir út í sumarið og framtíðina.

BS 14.05.08

Egill Helgason heimsækir heimspekivalið

Í kjölfar umræðu heimspekinemenda undanfarið um orð Egils Helgasonar um unglinga var ákveðið að bjóða Agli í heimsókn. Hann þáði snarlega boðið og kom og talaði við nemendur í kennslustund í dag. Egill byrjaði á því að útskýra bakgrunninn að því að hann lét orðin „unglingar eru náttúrulega mjög vitlausir almennt“ falla. Hann sagði að hann hefði fyrst og fremst verið að vísa í reynslu sína af sjálfum sér sem unglingur. Síðan gerði hann greinarmun á unglingum og fullorðnum á þann veg að unglingar væru líklegri til að vera tilfinninganæmir og hrifnæmir og upplifa hlutina sterkt en fullorðnir hefðu oft að einhverju leyti glatað þessum hæfileikum og í staðinn eflt hæfileikann til að hugsa gagnýnið. Nemendur í heimspekivalinu voru sammála þessu.

Ýmislegt fleira bar á góma í tímanum, nemendur voru duglegir að leggja fram spurningar og sín sjónarmið og hlustuðu af mikilli athygli á orð Egils.

BS 22.04.08

Á döfinni

Vinna í heimspekivalinu hefur verið skrikkjótt undanfarnar vikur vegna páskaleyfis, frídaga og forfalla kennarans. Síðasta samræða fyrir prófatímabilið mun fjalla um fordóma en þetta er umræðuefni sem liggur þungt á nemendum og iðulega er skoðanir ákaflega skiptar þegar kemur að því að meta tiltekin dæmi um fordóma, t.d. kynþáttafordóma. Kveikja að þessu sinni verður frétt sem birtist nýlega í Morgunblaðinu um athugasemdir sem ung stúlka gerði við málflutning Egils Helgasonar, sjónvarpsmanns sem staðhæfði að „Unglingar eru náttúrlega mjög vitlausir almennt.“

BS 18.03.08

Þróunarverkefni við Leikskólann Foldaborg: Heimspekisamræða í kennarahópi – starfsþroski og endurmenntun

Í leikskólanum Foldaborg í Grafarvogi hefur heimspeki verið stunduð af börnum og starfsfólki í um það bil áratug. Nú er þar unnið þróunarverkefnið Heimspekisamræða í kennarahópi – starfsþroski og endurmenntun undir stjórn Margrétar J. Þorvaldsdóttur við Háskólann á Akureyri. MEIRA...

BS 14.03.08

Heimspekiríkið

Í tíma föstudaginn 14. mars sköpuðu nemendur í heimspekivalinu Heimspekiríkið í Garðaskóla. Ríkið afmarkast af 4 veggjum skólastofunnar og í því eru 11 þegnar. Tilgangurinn með stofnun Heimspekiríkisins var að prófa á eigin beini hvernig ólík stjórnarform líta út og læra þannig meira um stjórnmál og lýðræði. Þegnarnir skilgreindu afmarkað verkefni til að fást við og var það plássleysi í ríkinu. Síðan prófuðu þeir að leysa þetta vandamál sem stjórnleysingjar, sem einvaldsríki og sem fulltrúalýðræði. Öll stjórnarformin virtust hafa bæði kosti og galla og má skoða hugmyndir nemenda í samantekt á samræðu þeirra.

 

Síðast uppfært 1. nóvember 2010
Um heimspeki með börnum og unglingum | Hafðu samband við okkur | ©2007 Brynhildur Sigurðardóttir